2 min read

Þú laðar að þér það sem þú ert
Ákveddu meðvitað hver þú vilt vera

Eitt þurfum við að skilja og þá meina ég raunverulega skilja. Lífið getur ekki orðið neitt betra en núna. Hvað meina ég með því? Það tilfinningaástand sem þú ert í núna er það sem þú hefur tileinkað þér með æfingu. Þú hefur æft ákveðið hugarfar í svo og svo langan tíma sem hefur gert þig að þeirri konu sem þú ert i dag. Ef sú kona er neikvæð, kvartar mikið og sér dekkri hliðina á lífinu, þá skiptir ekki máli hverju þú breytir í utanaðkomandi aðstæðum. Það líður ekki á löngu þar til þú hefur fundið ástæður í þeim aðstæðum til að vera neikvæð, kvarta og sjá dökku hliðina þar.

Heilinn finnur alltaf sjálfsmynd sína. Hann sannar alltaf það sem hann trúir og hann kemur þér alltaf í kunnuglegt ástand. Það getur verið að nýjar aðstæður gefi þér stundaránægju og trú um að allt verði gott en það líður ekki á löngu þar til þú hefur fundið sjálfa þig aftur.

Þetta þurfum við að vera tilbúnar að samþykkja og átta okkur á til að geta gert raunverulegar breytingar. Þær koma innan frá og byrja með meðvitund um núverandi hugar- og tilfinningaástand. Þetta getur aldrei byrjað öðruvísi.

 

Til að hafa gaman og njóta þurfum við að byrja að æfa okkur í að vera sú kona strax i dag.Ekki þegar við minnkum vinnuna, förum í utanlandsferðina, missum kílóin eða flytjum eitthvað annað.

Við þurfum ekki að setja okkur í þessa tilfinningalegu biðstofu þar til einn góðan veðurdag þegar aðstæður okkar verða öðruvísi. Af því að við löðum alltaf að okkur meira af því sem við erum þannig að við viðhöldum alltaf því tilfinningaástandi sem við erum í núna og þannig festumst við í biðstofunni.

Við frestum því alltaf aðeins meira að hafa gaman og njóta af því að við trúum að eitthvað þurfi að breytast til að það sé mögulegt. Þetta verður leitin endalausa af því að við erum ekki að leita á réttum stað, innan frá. 

Sleppum biðstofunni og byrjum strax í dag að æfa nýtt tilfinningaástand með því að velja hugsanir okkar meðvitað og vísvitandi. Breyttu sögu þinni um núverandi aðstæður ef hún þjónar þér ekki. Ég er ekki að segja að það sé bannað að breyta aðstæðum, síður en svo. Ég hvet til þess að nota umhverfið til að þroska þig með því að takast á við nýja hluti reglulega. En ekki halda að tilfinningaástand þitt breytist sjálfkrafa við það. Það gerist ekki nema með þinni innri vinnu.