2 min read

Í boði fyrir alla

Í vinnu með þeim þúsundum kvenna sem ég hef fengið að vinna með í gegnum tíðina hef ég tekið eftir að það virðist vera mjög algengt að konur upplifi skort á sjálfsöryggi og sjálfsaga. Þetta er eitt af því sem mér finnst ég heyra hvað oftast og ég hef lagt mikið upp úr því að vinna með þetta með konunum mínum.Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að við förum að upplifa skort á þessum tilfinningum en það sem við þurfum alltaf fyrst og fremst að skilja er að þetta eru tilfinningar sem koma frá því sem við hugsum. 

Við höfum í svo langan tíma verið að hugsa þetta vitlaust. Við höfum haldið að sjálfsöryggi og sjálfsagi sé eitthvað sem einhverjir einfaldlega hafa, eins og þeim hafi verið gefið það í vöggugjöf. Eða þá að við höfum haldið að til að upplifa þessar tilfinningar þurfum við fyrst að hafa gert eitthvað eða afrekað eitthvað. Við förum að trúa að einn góðan veðurdag þegar við verðum búnar að missa kílóin, klára námið, fá stöðuhækkunina, giftast draumaprinsinum eða passa í kjólinn, þá getum við verið sjálfsöruggar og litið á okkur sem sjálfsagaðar konur. 

En það sem ég kenni er að þessu eru akkúrat öfugt farið. Af því að ekkert af þessu verður að veruleika nema við höfum sjálfsöryggi og sjálfsaga fyrir. Við þurfum að læra að vera sjálfsagaðar og sjálfsöruggar konur sem gerum hlutina sem þarf að gera út frá þeim tilfinningum. Þannig verður það að þeim veruleika sem við erum á eftir. En ef við höldum áfram að vera uppfullar af óöryggi og skorti á sjálfsaga og teljum okkur trú um að við þurfum bara að framkvæma ákveðna hluti til að breyta því þá er það ekki að fara að gerast. Af því að óöryggi og skortur á sjálfsaga eru ekki kraftmiklar tilfinningar og hvetja okkur svo sannarlega ekki til aðgerða.

Þess vegna þurfum við að byrja að æfa okkur að hugsa hugsanir sem framkalla sjálfsöryggi og sjálfsaga strax í dag til að auka líkurnar á því að við grípum til kröftugra aðgerða sem svo styrkja sjálfsöryggis hugsanir okkar. Og svona vinnum þetta í smáum skrefum, einn dag í einu. Mig langar að hvetja þig, lesandi góður, að ákveða að auka sjálfsöryggi og sjálfsaga strax í dag með því að velja hugsanir þínar af kostgæfni og fara svo út í daginn þinn staðráðin í að sanna þær hugsanir sem þú velur réttar.